8 September 2006 12:00

Þremur tölvum var stolið í jafnmörgum þjófnaðarmálum sem voru tilkynnt til lögreglunnar í Reykjavík í gær. Einni var stolið úr skóla, annarri í heimahúsi þar sem þjófurinn fór inn um svaladyr en ekki er fullkomlega ljóst með hvaða hætti þriðja tölvan hvarf.

Lögreglan rannsakar líka fáein rúðubrot en í einu þeirra var brotin rúða í bílaleigubíl. Tveir Þjóðverjar voru sofandi í bílnum þegar rúðan var brotin en þá sakaði ekki. Þá var erlendur skipverji til vandræða vegna ölvunar en honum var komið um borð í skip sitt.

Lögreglan sinnti líka fleiri málum þar sem áfengi kom við sögu. Svokölluðu busaböll eru haldin þessa dagana og þótt þau fari iðulega vel fram eru stundum einhverjir til vandræða. Þannig var það líka í gær en tekið skal fram að tilfellin voru örfá.