23 Mars 2007 12:00

Karlmaður á fertugsaldri var handtekinn við stofnun í Hlíðahverfi um miðjan dag í gær. Maðurinn hafði þegar stolið tveimur tölvum þegar lögreglumenn komu á vettvang en hann þóttist vera að fara með þær í viðgerð. Maðurinn hafði komið tölvunum undan en sneri aftur í stofnunina til að sækja enn fleiri þegar hann var handtekinn. Á öðrum stað í borginni stálu bíræfnir þjófar dekkjum og felgum undan fólksbifreið og ljóst að því hefur fylgt nokkurt umstang.

Í Kópavogi var ófyrirleitinn þjófur á ferðinni en sá stal slökkvitæki frá fyrirtæki í vesturbænum. Fleiri slökkvitækjum hefur verið stolið frá sama fyrirtæki en tjónið er ekki bara fjárhagslegt. Slökkvitæki getur skipt sköpum ef upp kemur eldur og því mjög bagalegt ef það er ekki til staðar þegar á þarf að halda.