31 Júlí 2006 12:00
Nýliðin helgi var tiltölulega róleg hjá lögreglunni í Reykjavík. Vissulega þurfti að sinna ýmsum málum en flest gekk það vel og vandræðalaust fyrir sig. Hæst báru tónleikar á Miklatúni á sunnudagskvöld en lögreglan hafði allnokkurn viðbúnað vegna þeirra.
Áætlað er að 15 þúsund manns hafi hlýtt á tónleikana sem heppnuðust mjög vel. Framkoma tónleikagesta var til fyrirmyndar og umferð til og frá svæðinu gekk áfallalaust. Vín sást vart á nokkrum manni og það er mikið gleðiefni þegar samkomuhald fer svona vel fram.