24 Júlí 2018 11:07
Þúsundir gesta eru væntanlegir á tónleika hljómsveitarinnar Guns N‘ Roses á Laugardalsvellinum í kvöld og því mikilvægt að fólki gefi sér góðan tíma til að komast á staðinn og eins aftur heim að tónleikunum loknum. Búast má við mikilli umferð á svæðinu og í næsta nágrenni og því nauðsynlegt að ökumenn sýni þolinmæði. Nokkrum götum verður lokað, eða umferð um þær takmörkuð meðan á þessu stendur. Sjá má nánar um það á meðfylgjandi korti, sem tónleikahaldarar hafa sent frá sér. Athygli er vakin á gulmerktum bílastæðum, en þau eru einvörðungu ætluð ökutækjum sem í eru minnst fjórir miðahafar á tónleikana. Sem fyrr mælum við hins vegar sérstaklega með því að fólk taki strætó á Laugardalsvöllinn, en boðið verður upp á hraðferðir frá þremur stöðum í borginni, þ.e. Háskólanum í Reykjavík, Mjóddinni og biðstöð norðanmegin við Kringluna (hjá Orkunni). Eftir tónleikana verður Suðurlandsbraut, á milli Grensásvegar og Kringlumýrarbrautar, lokað til að greiða fyrir umferð strætisvagna. Um leið og við minnum á veðurspána, sem gerir ráð fyrir einhverri vætu og því best að búa sig í samræmi við það, óskum við tónleikagestum góðrar skemmtunar á Laugardalsvelli í kvöld.