1 Ágúst 2006 12:00

Undanfarna daga hefur lögreglan í Reykjavík verið með sérstakt átak og kannað ástand ökutækja. Þar er sérstaklega litið eftir því hvort búið sé að færa ökutæki til lögbundinnar skoðunar. Þetta á bæði við um aðalskoðun og endurskoðun.

Margir virðast trassa að fara með ökutæki í skoðun en séu þau ákvæði ekki virt klippir lögreglan skrásetningarnúmerin af. Í yfirstandandi átaki er búið að klippa skrásetningarnúmer af fjórtán ökutækjum.

Í þessu sama átaki hefur lögreglan klippt skrásetningarnúmer af fimm ökutækjum sem öll voru ótryggð. Lögreglan hvetur fólk til að virða ákvæði um skoðun og tryggingar ökutækja.