30 Maí 2011 12:00

Tuttugu og þrír ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Sextán þeirra voru stöðvaðir í Reykjavík, fjórir í Garðabæ, tveir í Kópavogi og einn í Mosfellsbæ. Þrír voru teknir á föstudagskvöld, tíu á laugardag og einnig tíu á sunnudag. Þetta voru sextán karlar á aldrinum 19-50 ára og sjö konur, 19-32 ára. Tveir þessara ökumanna höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi og einn hefur aldrei öðlast ökuréttindi. Í einu tilviki var um að ræða ölvaðan ökumann með barn í bílnum en með í för var einnig farþegi á fullorðinsaldri. Sá var líka ölvaður og því ekki hæfur til að taka við akstrinum. Þess má jafnframt geta að fjögur umferðaróhöpp um helgina voru rakin til ölvunaraksturs en í þremur þeirra varð slys á fólki.

Þrátt fyrir að óvenju margir hafi verið teknir fyrir ölvunarakstur um helgina hefur skráðum kærum vegna ölvunaraksturs fækkað úr 1.122 árið 2008 í 826 árið 2010. Á sama tíma hefur umferðaróhöppum þar sem ölvun kemur við sögu fækkað úr 204 í 143. Vísbendingar eru því um að ölvuðum ökumönnum í umferð fari fækkandi.

Lögreglan vill því vona að nýliðin helgi sé undantekning í þessum efnum og að þróunin sé ekki að breytast til hins verra. Lögreglan bendir um leið á þá staðreynd að ökumenn bera ekki aðeins ábyrgð á sjálfum sér í umferðinni heldur öðrum vegfarendum ekki síður. Ábyrgð þeirra er því mikil.