10 Júní 2011 12:00

Tveir karlmenn á þrítugsaldri sem lögreglan telur að séu meðlimir Íslandsdeildar Hells Angels, voru handteknir á miðvikudag við iðnaðarhúsnæði í austurborginni. Við húsleit þar fundust rúmlega 120 kannabisplöntur á nokkrum ræktunarstigum. Það er mat lögreglu að ræktunin, sem var á tveimur hæðum húsnæðissins, hafi verið þar í nokkurn tíma. Við húsleitina fundust einnig tvær haglabyssur, tvíhleypa og hálfsjálfvirk. Búið var að sverfa verksmiðjunúmerið af báðum byssunum en ekki liggur fyrir um tilgang þeirra á ræktunarstaðnum. Vilji meðlima Hells Angels að safna vopnum er þó þekktur víða um heim. Haglabyssurnar sæta nú skoðun þar sem ekki liggur fyrir um uppruna þeirra. Ýmis gögn er tengjast Hells Angels klúbbnum fundust á staðnum en tveir aðrir karlmenn á þrítugsaldri, sem hafa tengingu við klúbbinn, voru einnig yfirheyrðir vegna málsins. Rannsókn málsins er liður í samvinnu lögreglustjóranna á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum sem beinist gegn skipulagðri brotastarfsemi meðal annars af hendi alþjóðlegra vélhjólahópa.