24 Janúar 2007 12:00
Tveir ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær og nótt. Annar er tæplega áttræður en hann var stöðvaður í austurborginni. Hinn er hálffimmtugur en hann var tekinn í Hafnarfirði. Þá tók lögreglan tvo aðra ökumenn sem höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi. Annar þeirra keyrði í gegnum grindverk við Hafnarfjarðarveg. Bíll hans skemmdist nokkuð og var óökufær.
Tuttugu og átta umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar í gær, flest minniháttar. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild eftir tveggja bíla árekstur á Snorrabraut en ekki er vitað frekar um meiðsli þeirra. Á annan tug ökumanna voru teknir fyrir hraðakstur. Þá voru skráningarnúmer klippt af níu ökutækjum sem öll voru ótryggð.