18 Janúar 2007 12:00

Tveir ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur í Hafnarfirði í  nótt. Þeir eru báðir á þrítugsaldri en akstur þeirra var stöðvaður á svipuðum slóðum á nánast sama tíma. Allnokkrir voru teknir fyrir hraðakstur en það er áhyggjuefni að ökumenn skuli ekki taka meira tillit til aðstæðna en raun ber vitni. Í vikunni hefur lögreglan stöðvað marga ökumenn á höfuðborgarsvæðinu sem hafa keyrt á yfir 100 km hraða. Þá mætti ástandið í íbúðargötum líka vera betra en í gær var t.d. einn ökumaður tekinn í Arnarbakka í Breiðholti. Sá ók á liðlega tvöföldum leyfilegum hámarkshraða.

Tuttugu og níu umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á síðasta sólarhring, flest minniháttar og ekki er vitað um neinn sem var fluttur á slysadeild. Ökumaður og farþegi, sem lentu í umferðaróhappi í Jaðarseli í gærkvöld, ætluðu þó sjálfir að leita sér læknisaðstoðar.