11 Júlí 2007 12:00

Tveir ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur í Reykjavík í gær. Annar var stöðvaður á Bústaðavegi undir kvöldmat en hinn í Laugardal síðla kvölds. Bíll þess fyrrnefnda var jafnframt búinn tveimur nagladekkjum og á viðkomandi sekt yfir höfði sér fyrir það að auki. Þá var akstur 19 ára pilts stöðvaður í miðborginni í nótt en grunur lék á að hann væri undir áhrifum fíkniefna. Pilturinn virti stöðvunarmerki lögreglu en reyndi síðan að komast undan á hlaupum. Hann komst þó ekki langt og var handsamaður hið snarasta og færður á lögreglustöð.

Tuttugu og fimm umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á síðasta sólarhring. Flest voru minniháttar en í tveimur tilvikum var fólk flutt á slysadeild.