14 September 2006 12:00
Tveir ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur í Reykjavík í nótt. Í fyrra tilfellinu var um að ræða tæplega þrítuga konu en í því síðara átti 17 ára piltur hlut að máli. Sá fékk ökuskírteini í hendur fyrir fáeinum mánuðum. Þetta eru heldur dapurlegar fréttir á degi sem þessum en síðar í dag eru haldnir borgarafundir undir yfirskriftinni: Nú segjum við stopp! Þar munu fórnarlömb umferðarslysa og aðstandendur þeirra segja frá reynslu sinni. Alkunna er að mörg alvarlegra umferðarslysa undanfarinna ára má rekja til ölvunaraksturs.
Þó nokkrir voru teknir fyrir hraðakstur í gær en sérstaka athygli vekur að enn kemur Arnarbakki í Breiðholti við sögu. Þar hefur lögreglan fylgst grannt með umferð og ítrekað reynt að höfða til skynsemi ökumanna. M.a. hefur oft verið bent á að þar á hópur skólabarna leið um á hverjum degi.