27 Júní 2007 12:00
Í gær komu tvö mál til kasta lögreglu þar sem ætluð fíkniefni fundust. Í öðru málinu var gerð húsleit á heimili í vesturborginni og fundust þar um 100 gr. af hassi og um 50 gr. af maríhúana. Efnunum hafði verið pakkað í neyslupakkningar og voru tilbúin til dreifingar og neyslu. Tveir karlmenn á þrítugsaldri hafa verið yfirheyrðir vegna málsins og telst það vera upplýst.
Þá fann lögregla í gærkvöldi ætluð fíkniefni af ýmsum tegundum, sem búið var að skipta í neysluskammta, við leit á heimili í miðborginni. Einnig var lagt hald á um 250 þúsund krónur í peningum sem taldir eru tengjast fíkniefnaviðskiptum. Maður á sextugsaldri var yfirheyrður vegna málsins en honum var sleppt að yfirheyrslu lokinni.