26 Janúar 2012 12:00
Í gærmorgun barst lögreglu tilkynning um nytjastuld. Um var að ræða fólksbíl sem hafði horfið af bílastæði við fjölbýlishús í Breiðholti. Það var eigandinn sem hringdi sjálfur í lögregluna og boðaði hann jafnframt komu sína á lögreglustöð vegna málsins. Ekki kom þó til þess því stuttu síðar hafði maðurinn aftur samband við lögreglu og greindi frá því að bíllinn væri fundinn. Spurður frekar um málsatvik sagði maðurinn að bíllinn væri ennþá á áðurnefndu bílastæði, eftir allt saman, og hefði ekki verið hreyfður úr stað. Hins vegar væri svo mikill snjór á bílastæðinu að hann hefði einfaldlega ekki fundið bílinn fyrst í stað og því álitið að honum hefði verið stolið.