2 Apríl 2020 10:53

Þær eru margar starfsstöðvarnar sem eru að bregðast við og sporna gegn útbreiðslu Covid 19 faraldursins sem nú herjar á okkur.   Við gætum talið upp starfsstéttir og með réttu því margar þeirra eru að vinna alveg gríðarlega langa vinnudaga án þess að líta upp.   Þeim þökkum við af alúð. Hinsvegar skulum við líka og ekki síður klappa okkur sjálfum á bakið og muna að árangurinn af þessu öllu veltur ekki síst á því sem við erum sjálf sem einstaklingar að gera.   Ábyrgðin á árangrinum er ekki síður hjá okkur. Við erum öll almannavarnir, erum mögulega að nálgast hálfleik, erum með verkefnið í ákveðnum tökum og ætlum ekki að fá á okkur klaufamörk rétt fyrir hálfleik

Framundan er Páskavikan og við erum vön því að gera okkur glaðan dag og jafnvel leggjast í flakk um landið. Almannavarnir hafa verulegar áhyggjur af miklum ferðalögum yfir páskana sem gætu aukið verulega á álag á heilbrigðiskerfið okkar. Virðum þær takmarkanir og viðmiðanir sem settar eru til að forðast smit.   Við þurfum að gæta að því að virða fjarlægðarmörk þegar við förum út að skoða landslagið eða í búðirnar.   Við skulum ekki hópast inn í sjoppurnar heldur senda einn úr bílnum til að ná í fyrir hópinn. Almannavarnir á Suðurlandi hvetja fólk til þess að vera sem mest heimavið í Páskavikunni.   Sumarbústaðalönd eru mörg á kafi í snjó og erfitt að komast að þeim auk þess sem t.d. sjúkraflutningar eða önnur sjúkraþjónusta gæti verið tafsöm við slíkar aðstæður. Veðurspá fyrir komandi helgi er ekki að lofa sól og sumaryl í bili.

Ef við erum í sóttkví þá gilda um það sérstakar reglur og þær má lesa inn á heimasíðunni covid.is (hér). Lang flestir leggja sig fram um að vinna eftir þeim og eru algerlega til fyrirmyndar. Fylgjum þeim og gerum okkar til að takmarka eða að koma í veg fyrir dreifingu sjúkdómsins.

Nú sem fyrr er mikilvægt að vanda alla umræðu og sér í lagi í kringum yngri kynslóðir. Málefnaleg umræða er mikilvæg og öllum frjálst að hafa skoðun um strauma og stefnur. En jafnmikilvægt er að gleyma sér ekki og tala ábyrgðarlaust í áheyrn ungra einstaklinga sem þurfa nú öflugar fyrirmyndir.

Frá upphafi hefur verið unnin skipulagsvinna undir stjórn aðgerðarstjórnar almannavarna á Suðurlandi í samstarfi við Sóttvarnarlækni. Lögð hefur verið áheyrsla á samvinnu og góðar boðleiðir milli allra eininga.  Aðgerðastjórn kemur saman alla virka daga og oftar ef þurfa þykir.   Í vikunni er búið að funda öðru sinni með vettvangsstjórnum innan umdæmisins og eru þær allar tilbúnar í sín verkefni þegar og ef þarf.

Það sem skiptir þó mestu máli er að við styðjum hvert annað, komum fram af virðingu og umhyggju. Gerum okkur grein fyrir alvöru málsins án þess að láta hræðast, vöndum okkur í samskiptum. Fylgjum í hvívetna þeim leiðbeiningum og fyrirmælum sem sóttvarnarlæknir, landlæknir og almannavarnir gefa út á sínum miðlum.

Við erum öll almannavarnir

Lögreglan á Suðurlandi