9 Nóvember 2007 12:00

Mjög margir ökumenn eru til fyrirmyndar enda haga flestir akstri sínum með þeim hætti að sómi er að. Þetta eru ökumennirnir sem virða umferðarreglur og hegðun þeirra er því mjög til eftirbreytni. Því miður falla ekki allir ökumenn í þennan hóp enda talar tölfræðin sínu máli. Daglega eru ökumenn staðnir að hraðakstri, teknir fyrir ölvunarakstur eða gripnir við að brjóta önnur umferðarlög. Nauðsynlegt er að hinir sömu taki sig á enda er umferðaröryggi mjög mikilvægt mál sem varðar alla.

Fleira má betur fara og það á ekki síst við um framkomu ökumanna. Undanfarið hafa allmörg mál komið á borð lögreglu sem vekja upp ýmsar spurningar um hátterni fólks. Dæmi um það er uppákoma í Vogahverfinu en þar var bíll kyrrstæður á miðri akbraut. Ökumaður sem á eftir kom flautaði því á bíllinn fyrir framan en ökumaður hans, sem var að tala í síma, vatt sér þá út og skyrpti á þann sem flautaði. Á Vesturlandsvegi varð ámóta atvik en þar var ökumaður sem flautaði á annan, eltur uppi og hótað öllu illu.

Á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar kom til handalögmála þegar tveir ökumenn biðu eftir grænu ljósi. Annar þeirra hafði reykspólað heldur hressilega að mati hins en þegar sá síðarnefndi vildi koma athugasemd sinni á framfæri fór allt í bál og brand. Í Grafarholti ofbauð manni ofsaakstur í tiltekinni götu. Hann setti því kúst fyrir framan bíl glannans sem reiddist því mjög og sló til þess sem ætlaði að spyrna við fótum við frekari háskaakstri. Í Árbæ kom upp svipað mál en þar var aðila svo misboðið að hann lagði bíl sínum fyrir framan innkeyrslu hjá meintum ökufanti. Sá síðarnefndi komst því vitaskuld hvorki lönd né strönd fyrr en lögreglan kom á staðinn og skakkaði leikinn. Það skal tekið fram að engin alvarleg meiðsli hlutust af í þeim málum sem hér voru nefnd til sögunnar.