12 Maí 2019 12:30

Á þessum tíma árs draga margir fram kerrurnar og byrja að ferja garðaúrgang og fleira á milli staða. Mikilvægt er að kerrur séu rétt útbúnar, ljós í lagi, skráningarmerki greinileg og allt hitt sem lögin kveða á um. Hér fylgir samantekt hagnýtra upplýsinga um kerrur, hestakerrur, tjaldvagna, hjólhýsi og aðra eftirvagna fyrir fólksbifreiðar, sem rétt er að kynna sér.

Ljósabúnaður eftirvagna
Allir eftirvagnar skulu búnir ljósum, sem eru hliðstæð aftur- og hliðarljósum bifreiða.


Allir eftirvagnar:
Stöðuljós, aftan og að framan ef breidd er meira en 1,6 m
Hemlaljós
Stefnuljós
Þokuljós
Númeraljós
Glitaugu, þríhyrnd rauð að aftan
Glitaugu, ferhyrnd hvít að framan
Glitaugu, ferhyrnd gul á hlið

 

Eftirvagnar breiðari en 2,3 m.:
Breiddarljós, tvö hvít að framan og tvö rauð að aftan

 

Eftirvagnar lengri en 6 m.:
Hliðarljós

 

Speglar
Ef eftirvagn hindrar baksýn úr dráttarbílnum þarf að framlengja hliðarspegla bílsins báðum megin. Speglarnir skulu gera ökumanni kleift að sjá beggja vegna aftur með tækinu.

 

Lengd og breidd eftirvagna
Eftirvagn má ekki vera breiðari en 2,55 metrar og ekki ná meira en 30 cm út fyrir hvora hlið dráttarbílsins, þ.e. ekki vera meira en 60 cm breiðari en dráttarbíllinn. Almennar reglur gilda um lengd eftirvagna, en þeir mega ekki vera lengri en 12 metrar. Hámarkslengd bíls og eftirvagns er 18,75 metrar.

 

Heildarþyngd eftirvagns
Eftirvagn má aldrei vera þyngri en skráð er í skráningarskírteini dráttarbílsins, annars vegar fyrir vagn án hemla og hins vegar fyrir vagn með hemlum. Í eldri bílum eru þessar þyngdir ekki skráðar í skráningarskírteini og gildir þá reglan að eftirvagn án hemla má ekki vera þyngri en helmingur af eiginþyngd dráttarbílsins.

 

Hemlabúnaður eftirvagns
Allir eftirvagnar með leyfða heildarþyngd yfir 750 kg skulu búnir hemlum. Oftast er um að ræða svokallaða ýtihemla eða rafmagnshemla á vögnum með leyfða heildarþyngd 3500 kg. eða minna. Á þyngri vögnum skulu hemlar vera samtengdir hemlum dráttarbílsins. Ekki er skylt að hafa hemlabúnað á eftirvagni með leyfða heildarþyngd 750 kg., eða minna. Rétt er að benda á að einungis stærstu og öflugustu fólksbílar (og jeppar) mega draga hemlalausa vagna sem eru sem næst 750 kg þungir.Almenna reglan er sú að fólksbifreið og sendibifreið með eftirvagn má ekki aka hraðar en 90 km/klst. Bílar með óskráð tengitæki mega ekki fara hraðar en 60 km/klst. En munu vera í umferðinni nokkrir gamlir eftirvagnar, sem eru með leyfða heildarþyngd meiri en 750 kg og án hemla. Eru þeir frá því áður en reglur voru settar um að allir eftirvagnar með leyfða heildarþyngd yfir 750 kg skuli búnir hemlum. Hámarkshraði með þessa eftirvagna er 60 km/klst en rétt er að benda á að ekki eru nema fáir bílar sem mega draga þessa vagna.


ABS hemlar

Margir nýlegir fólksbílar eru búnir svokölluðum ABS (anti-lock braking system) hemlum. Eftirvagnar með ýtihemla eru sjaldan með þennan búnað. Þessi samsetning getur verið hættuleg þegar nauðhemlað er á miklum hraða á blautum vegi. Hjól bílsins stöðvast ekki þannig að hægt er að stýra bílnum við slíkar kringumstæður. Öðru máli gegnir um vagninn, sem missir veggripið og getur lagst fram með bílnum.