7 Desember 2017 14:57
Að gefnu tilefni minnir Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu enn á mikilvægi þess að fólk gæti að því hvað það segir og gerir í samskiptum á Netinu. Upprifjunin er tilkomin vegna tilkynninga sem okkur berast næstum reglulega og fjárkúgun sem því tengist, en hér er verið að vísa til þess þegar ákveðin kynni takast með íslenskum karlmanni og erlendri konu í gegnum fésbókina. Eftir örstutt kynni eiga samskiptin það til að færast yfir á Skype, þ.e. bæði í hljóð og mynd. Þar viðhefur karlinn oftar en ekki kynlífstengdar athafnir, en í kjölfar þess er honum tilkynnt að athæfið hafi verið tekið upp á myndband. Síðan er viðkomandi hótað að það verði sent til opinberrar birtingar, bæði vinum hans á fésbókinni sem og YouTube, ef ekki komi til peningagreiðsla innan tiltekins tíma.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur ráðlagt þeim sem í þessu lenda að láta ekki undan hótunum enda viðbúið að þær haldi áfram engu að síður. Mál sem þessi eru jafnframt alvarleg áminning um mikilvægi þess að fólk gæti að því hvað það segir og gerir í samskiptum á Netinu og því er það áréttað hér.