13 September 2016 16:27
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði mjög umfangsmikla kannabisræktun í iðnaðarhúsnæði í Kópavogi á föstudag og lagði hald á verulegt magn af fíkniefnum, en um var að ræða á sjötta hundrað kannabisplöntur á lokastigi ræktunar. Á vettvangi fannst enn fremur mikið magn af tilbúnu marijúana og niðurklipptum laufum. Lögreglan lagði einnig hald á verulega fjármuni í þágu rannsóknarinnar, en grunur leikur á að þeir séu tilkomnir vegna fíkniefnasölu. Sex manns voru handteknir í aðgerðum lögreglunnar og voru þrír þeirra síðan úrskurðaðir í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna á laugardag, eða til föstudagsins 16. september. Þetta eru þrír karlar, tveir á fertugsaldri og einn á sextugsaldri, en mennirnir hafa ekki áður komið við sögu hjá lögreglu. Kannabisræktunin var mjög fullkomin og var búnaðurinn eftir því, en það tók hóp lögreglumanna marga klukkutíma að taka ræktunina niður. Rannsókn málsins miðar vel.
Fyrrnefnd aðgerð er liður í að hamla gegn framleiðslu, dreifingu og sölu fíkniefna, en lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800 5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.