16 Júní 2015 17:10

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur lokið rannsókn á mjög umfangsmiklu fíkniefnamáli sem teygði anga sína til Svíþjóðar, Hollands, Frakklands og Brasilíu. Við rannsóknina, sem hófst í júlí 2014, var lagt hald á tæplega 700 grömm af kókaíni, um 4 kíló af amfetamíni og rúmlega 7 kg af sterum, auk 150 kannabisplatna og 500 gramma af kannabisefnum. Framkvæmdar voru níu húsleitir í þágu rannsóknarinnar, þar af ein á veitingastað. Á fjórða tug manna var yfirheyrður og sátu tíu þeirra í gæsluvarðhaldi sl. haust vegna rannsóknarhagsmuna, þar af einn í Svíþjóð. Gæsluvarðhald þeirra varði frá fjórum og upp í sextán daga, en hinir sömu eru allir íslenskir ríkisborgarar með einni undantekningu. Sá sem var handtekinn í Svíþjóð hefur þegar hlotið dóm ytra fyrir sinn þátt í málinu. Sama á við um brasilíska konu, sem var dæmd í árs fangelsi hérlendis, en hún var burðardýr í málinu.

Málið verður sent til embættis ríkissaksóknara á næstu dögum, en sakborningarnir eru á aldrinum 20-44 ára. Meintir skipuleggjendur hafa allir áður komið við sögu hjá lögreglu, en einn þeirra var að afplána dóm fyrir kókaínsmygl á sama tíma og umrætt mál var í rannsókn. Viðkomandi afplánar nú eftirstöðvar þess dóms. Rannsóknin var unnin í samvinnu við lögregluna á Suðurnesjum, tollgæsluna og tengslaskrifstofu Íslands hjá Europol. Þá naut lögreglan aðstoðar lögregluyfirvalda í Svíþjóð, Frakklandi og Brasilíu.

Eins og fram hefur komið var málið mjög umfangsmikið og margþætt, en lögreglan stöðvaði innflutning á kókaíni til Íslands frá bæði Hollandi og Brasilíu, sem og innflutning á amfetamíni til Íslands frá Svíþjóð. Enn fremur var stöðvaður innflutningur á sterum til Íslands frá Kína, auk framleiðslu á kannabisefnum hér á landi.