21 Febrúar 2013 12:00

Þann 21. janúar sl. fann tollgæslan rúmlega 20 kg af fíkniefnum í tollpóstinum á Stórhöfða í Reykjavík. Embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hefur undanfarnar vikur unnið að rannsókn málsins og átt náið samstarf við embætti tollstjórans í Reykjavík og lögreglustjórann í Kaupmannahöfn í Danmörku þaðan sem fíkniefnin voru send hingað til lands.

Fíkniefnin sem lagt var hald á reyndust vera rúmlega 20 kg af amfetamíni. Í þágu rannsóknar málsins hafa níu einstaklingar verið handteknir og yfirheyrðir og hafa átta þeirra sætt gæsluvarðhaldi.  Fimm þeirra sæta enn gæsluvarðhaldi.

Í gær var tollvörður handtekinn vegna grunsemda um aðild að málinu.  Hann var leiddur fyrir dómara í morgun og úrskurðaður til þess að sæta gæsluvarðhaldi í tvær vikur. Sex einstaklingar sæta því gæsluvarðhaldi nú í þágu rannsóknar málsins. Rétt þykir að taka fram að grunsemdir beinast aðeins að þeim tollverði sem nú sætir gæsluvarðhaldi en ekki að neinum öðrum í starfsumhverfi hans svo sem hjá tolli eða póstinum.