20 September 2007 12:00

Umfangsmikil rannsókn hefur verið í gangi hjá fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu undanfarna mánuði á hugsanlegum innflutningi á miklu magni af fíkniefnum hingað til lands. Rannsókn málsins hefur teygt anga sína til margra Evrópulanda og hafa lögreglulið í þessum löndum komið að henni fyrir tilstuðlan og vegna tengsla okkar við Evrópulögregluna, Europol.

Rannsókn þessa máls leiddi til þess að snemma í morgun var hald lagt á skútu við höfnina á Fáskrúðsfirði og nokkrir aðilar handteknir. Leit stendur yfir í skútunni en þegar hafa fundist í henni verulega mikið magn af ætluðum fíkniefnum. Á þessari stundu er ekki unnt að staðfesta hvaða efni er hér á ferðinni að öðru leyti en því að talið er að um örvandi efni sé að ræða, magnið er í tugum kílóa og mjög líklega er hér um að ræða mesta magn af fíkniefnum sem hald hefur verið lagt á hér á landi.

Rannsókn þessi og lögregluaðgerðin í morgun hefur átt sér langan aðdraganda og að henni koma margar innlendar og erlendar stofnanir. Rannsókninni hefur verið stjórnað af fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu með aðstoð og aðkomu alþjóðadeildar ríkislögreglustjóra og tengslafulltrúa íslensku lögreglunnar hjá Europol. Til aðstoðar við lögregluaðgerðina í morgun og að undirbúningi hennar komu auk þess Landhelgisgæslan og sérsveit ríkislögreglustjóra sem og lögreglan á Eskifirði.

Frekari upplýsingar verða veittar fjölmiðlum um leið og þær liggja fyrir.

Frá blaðamannafundinum í morgun.