21 Desember 2012 12:00

Búast má við mikilli umferð við kirkjugarða á höfuðborgarsvæðinu á aðfangadag. Lögreglan mun fylgjast sérstaklega með umferð við Fossvogskirkjugarð og Gufuneskirkjugarð og greiða fyrir umferð eins og hægt er.

Bílaumferð inn í Fossvogskirkjugarði er takmörkuð á milli kl 9–15 og aðeins heimil þeim sem framvísa svokölluðu P-merki. Ökumönnum er bent á bílastæði við Fossvogskirkju, Klettaskóla, Suðurhlíð og Vesturhlíð. Suðurhlíð verður opin inn á Kringlumýrarbraut í gegnum planið hjá N1 í Fossvogi fyrir þá sem eru að fara til Hafnarfjarðar og/eða Kópavogs.

Aðkoma að Gufuneskirkjugarði verður eingöngu frá Hallsvegi. Starfsfólk Kirkjugarða Reykjavíkurprófastdæma stýrir umferðinni inni í kirkjugarðinum og verður um einskonar hringakstur að ræða. Farið er út úr Gufuneskirkjugarði norðanmegin og inn á Borgaveg. Ökumenn eru beðnir um að aka Borgaveg í vestur og þaðan um Strandveg. Með þessu móti minnkar álagið á Víkurveg og Hallsveg og greiðir fyrir umferð þeirra sem eru að koma í kirkjugarðinn.

Sem fyrr hvetur lögreglan ökumenn til að aka varlega og sýna tillitssemi í umferðinni.