22 Desember 2016 09:53
Búast má við mikilli umferð við kirkjugarða á höfuðborgarsvæðinu á Þorláksmessu og aðfangadag. Lögreglan mun fylgjast sérstaklega með umferð við Fossvogskirkjugarð og Gufuneskirkjugarð og greiða fyrir umferð eins og hægt er.
Bílaumferð inn í Fossvogskirkjugarði er takmörkuð á aðfangadag á milli kl 9–15 og aðeins heimil þeim sem framvísa svokölluðu P-merki. Ökumönnum er bent á bílastæði við Fossvogskirkju, Klettaskóla, Suðurhlíð og Vesturhlíð. Suðurhlíð er opin inn á Kringlumýrarbraut í gegnum planið hjá N1 í Fossvogi frá og með 22. desember. Sú leið er hentug fyrir þá sem eru að fara til Hafnarfjarðar og/eða Kópavogs. Ökumenn sem nýta sér þá leið eru sérstaklega beðnir um að sýna aðgát gagnvart gangandi vegfarendum.
Aðkoma að Gufuneskirkjugarði verður eingöngu frá Hallsvegi. Starfsfólk Kirkjugarða Reykjavíkurprófastdæma stýrir umferðinni inni í kirkjugarðinum og verður um einskonar hringakstur að ræða. Farið er út úr Gufuneskirkjugarði norðanmegin og inn á Borgaveg. Ökumenn eru beðnir um að aka Borgaveg í vestur og þaðan um Strandveg. Með þessu móti minnkar álagið á Víkurveg og Hallsveg og greiðir fyrir umferð þeirra sem eru að koma í kirkjugarðinn.
Sem fyrr hvetur lögreglan ökumenn til að aka varlega og sýna tillitssemi í umferðinni. Rétt er sömuleiðis að vara gangandi vegfarendur við hálku sem er víða að finna á bifreiðastæðum og göngustígum og því vissara að fara að öllu með gát.