22 Desember 2022 14:22

Búast má við mikilli umferð við kirkjugarða á höfuðborgarsvæðinu á Þorláksmessu og aðfangadag, en kirkjugarðarnir eru jafnframt opnir og aðgengilegir allan sólarhringinn yfir hátíðirnar. Lögreglan mun fylgjast sérstaklega með umferð við Fossvogskirkjugarð og Gufuneskirkjugarð og greiða fyrir umferð eins og hægt er. Áfram verður kalt í veðri og því mikilvægt að klæða sig vel þegar farið er að leiðum ástvina. Og hafa líka í huga að víða er enn töluverður snjór og færðin er því ekki alls staðar með besta móti.

Vakin er sérstök athygli á því að Fossvogskirkjugarður er lokaður allri bílaumferð á aðfangadag frá kl. 11-14 vegna mikils fjölda gangandi vegfarenda og slysahættu. Ökumönnum er bent á bílastæði við Fossvogskirkju, Klettaskóla, Suðurhlíð og Vesturhlíð.

Aðkoma að Gufuneskirkjugarði verður eingöngu frá Hallsvegi. Starfsfólk Kirkjugarða Reykjavíkurprófastdæma stýrir umferðinni inni í kirkjugarðinum og verður um einskonar hringakstur að ræða. Farið er út úr Gufuneskirkjugarði norðanmegin og inn á Borgaveg. Ökumenn eru beðnir um að aka Borgaveg í vestur og þaðan um Strandveg. Með þessu móti minnkar álagið á Víkurveg og Hallsveg og greiðir fyrir umferð þeirra sem eru að koma í kirkjugarðinn.

Sem fyrr hvetur lögreglan ökumenn til að aka varlega og sýna tillitssemi í umferðinni.