4 Nóvember 2002 12:00
Samkvæmt ákvörðun ríkislögreglustjórans færðist umferðardeild embættisins undir daglega stjórn lögreglustjórans í Kópavogi þ. 1. nóvember s.l. Um er að ræða tilraunaverkefni sem standa á til 31. maí 2003. Markmiðið með breytingunni er að auka umferðareftirlit á höfuðborgarsvæðinu auk þess sem eftirliti á þjóðvegum landsins verður haldið uppi í nánu samstarfi við lögregluna í hverju umdæmi fyrir sig og Vegagerð ríkisins. Umferðardeildin hefur skilað góðu starfi undanfarin misseri en lengi má gott bæta. Stefnt er að enn markvissari nýtingu deildarinnar svo unnt sé að ná settum markmiðum.
Samráðsfundur yfirstjórna lögregluembætta á Suðurlandi, Reykjanesi, Vesturlandi og höfuðborgarsvæðinu var haldinn af þessu tilefni. Ýmsar hugmyndir um starfsemi umferðardeildarinnar voru ræddar. Lýstu fundarmenn yfir ánægju með samstarf við deildina hingað til og voru sammála um að nýta þessa breytingu til að skerpa enn betur á samstarfinu í því skyni að fækka umferðarslysum og óhöppum.