26 Janúar 2011 12:00

Rúmlega eitt hundrað ökumenn voru stöðvaðir í umferðareftirliti lögreglunnar í miðborginni í gærkvöld. Tveimur þeirra var gert að hætta akstri sökum þess að þeir höfðu neytt áfengis en voru þó undir leyfilegum mörkum. Sérstaka athygli vakti að ljósabúnaði margra ökutækja var áfátt. Ýmist vantaði ljós að framan eða aftan en ökumönnunum var góðfúslega bent á að skipta um perur, öryggi eða annað það sem bilað var. Öruggt má telja að ástandið sé svipað annars staðar á höfuðborgarsvæðinu og því hvetur lögreglan ökumenn til að huga sérstaklega að ljósabúnaðinum. Hann þarf alltaf að vera í lagi og ekki síst í skammdeginu.