21 Desember 2015 16:40
Hundrað sjötíu og einn ökumaður var stöðvaður í miðborginni um helgina í sérstöku umferðareftirliti lögreglunnar. Þrír þeirra reyndust ölvaðir og/eða undir áhrifum fíkniefna og eiga hinir sömu ökuleyfissviptingu yfir höfði sér. Einum til viðbótar var gert að hætta akstri en sá hafði neytt áfengis en var undir refsimörkum.
Markmiðið með ofangreindu átaki er að vekja athygli á þeirri hættu sem stafar af ölvunar- og fíkniefnaakstri og hvetja fólk til almennrar varkárni í umferðinni. Minnt er á viðvörunarorðin Eftir einn ei aki neinn en þau eiga alltaf við. Átakið nær að sjálfsögðu einnig til aksturs undir áhrifum lyfja en afleiðingar þess geta sömuleiðis verið skelfilegar.