13 Febrúar 2012 12:00
Fjögur hundruð og þrjátíu ökumenn voru stöðvaðir í miðborginni í umferðareftirliti lögreglunnar um helgina. Þrír ökumenn reyndust ölvaðir við stýrið og eiga þeir ökuleyfissviptingu yfir höfði sér. Fjórum til viðbótar var gert að hætta akstri sökum þess að þeir höfðu neytt áfengis en voru þó undir leyfilegum mörkum. Nokkra athygli vakti að ljósabúnaði allmargra ökutækja var ábótavant.
Af öðrum verkefnum helgarinnar má nefna að lögreglan hafði afskipti af fjölmörgum ökutækjum sem var lagt ólöglega. Þetta átti m.a. við um Hörpu á laugardagskvöld en þar var mörgum bílum lagt ólöglega. Kemur það nokkuð á óvart enda er stór bílageymsla í kjallara hússins og voru þar laus a.m.k. 150 bílastæði á sama tíma. Sömuleiðis eru fleiri bílastæði í nágrenninu og mörg þeirra í mjög stuttu göngufæri frá Hörpu. Þetta ættu ökumenn að hafa hugfast því sekt vegna stöðubrots er 5000 kr. og það eru útgjöld sem hægt er að forðast með því að sýna smá fyrirhyggju.