30 Desember 2013 12:00

Fjögur hundruð og sjötíu ökumenn voru stöðvaðir á höfuðborgarsvæðinu um helgina í sérstöku umferðareftirliti sem lögreglan heldur nú úti í umdæminu. Þrír ökumenn reyndust ölvaðir við stýrið og eiga þeir ökuleyfissviptingu yfir höfði sér. Einum til viðbótar var gert að hætta akstri sökum þess að hann hafði neytt áfengis en var þó undir refsimörkum.

Lögreglan var annars mjög víða við eftirlit, en samtals voru sautján ökumenn teknir fyrir  ölvunar- og fíkniefnaakstur á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Reyndar voru þetta  fimmtán ökumenn því tveir þeirra voru teknir tvisvar! Annar þeirra er karl á fertugsaldri, en sá var í bæði skiptin stöðvaður á Vesturlandsvegi, fyrst á föstudagskvöld og svo aftur í nótt. Hinn ökumaðurinn er kona á þrítugsaldri, en hún var stöðvuð með nokkurra klukkustunda millibili í miðborginni í gær.