3 Maí 2022 10:30

Allir ökumenn óku á löglegum hraða þegar lögreglan var við hraðamælingar á Garðahraunsvegi í Garðabæ í gær. Fylgst var með ökutækjum sem var ekið Garðahraunsveg í vesturátt, á móts við Útgarð. Á einni klukkustund, síðdegis, fóru 14 ökutæki þessa akstursleið og var þeim öllum ekið á löglegum hraða eins og áður sagði, en þarna er 30 km hámarkshraði.

Koma lögreglunnar á Garðahraunsveg snerist þó um fleira en hraðamælingar því við Útgarð er þrenging á veginum og innakstur bannaður nema um sé að ræða neyðarbifreiðar og strætisvagna, en þremur slikum var ekið í gegn á áðurnefndum tíma.  Við eftirlitið brutu sjö ökumenn gegn innakstursbanni, en þeir héldu för sinn áfram og beygðu síðan inn á Herjólfsbraut og óku hana til suðurs. Fjórir ökumenn sneru við þegar þeir sáu myndavélabíl lögreglunnar og óku Garðahraunsveg til baka. Þess má geta að engin umferð var austur Garðahraunsveg meðan á eftirlitinu stóð.

Vöktun lögreglunnar á Garðahraunsvegi er liður í umferðareftirliti hennar á höfuðborgarsvæðinu, en þess má geta að skýjað og þurrt var á meðan hraðamælingunni stóð.