4 Júlí 2012 12:00
Í kjölfar þriggja bíla áreksturs á gatnamótum Hafnarfjarðarvegar og Vífilsstaðavegar í Garðabæ sl. föstudag hefur lögreglan fylgst sérstaklega með umferð á þessum stað. Áreksturinn var mjög harður og voru sjö fluttir á slysadeild, en rannsókn málsins beinist m.a. að því hvort ekið hafi verið of hratt og/eða gegn rauðu ljósi. Lögreglan var við hraðamælingar við áðurnefnd gatnamót á mánudag og þriðjudag og þá voru allmargir ökumenn staðnir að hraðakstri. Þarna er 60 km hámarkshraði, en sá sem hraðast ók mældist á 121 km hraða.
Sem fyrr hvetur lögreglan ökumenn til að gæta ávallt fyllstu varkárni, ekki síst þegar leið þeirra liggur um fjölfarin gatnamót. Þar má lítið út af bregða til að ekki hljótist stórslys af og því rétt að ítreka að í umferðinni er best að flýta sér hægt. Lögreglan mun áfram verða sýnileg þar sem slys og óhöpp hafa verið tíð, en tilgangur þess er að draga úr hraðakstri og jafnframt að sjá til þess að allir komist heilir til síns heima.