23 Ágúst 2012 12:00

Þessa vikuna hefur lögreglan aukið umferðareftirlit á höfuðborgarsvæðinu, en eftirlit hennar beinist ekki síst að akstri við grunnskólana enda skólaárið nýhafið. Almennt má segja að umferðin hafi gengið vel fyrir sig og langflestir virða hámarkshraða. Undantekningarnar eru samt nokkrar en í gærmorgun stöðvaði lögreglan för ökumanns við einn grunnskólanna í umdæminu. Sá ók á 61 km hraða þar sem hámarkshraði er 30. Viðkomandi rétt sleppur við sviptingu ökuleyfis en verður sektaður fyrir glannaskapinn. Ökumaðurinn var fullur iðrunar og miður sín þegar lögreglan upplýsti hann um hraðann. Vonandi mun þetta því ekki endurtaka sig hjá umræddum ökumanni, en þess má geta að hann er starfsmaður í áðurnefndum skóla.