5 Desember 2016 16:11
Ellefu hundruð og fimmtíu ökumenn (1.150) voru stöðvaðir á höfuðborgarsvæðinu um helgina í sérstöku umferðareftirliti sem lögreglan heldur nú úti í umdæminu. Sex ökumenn reyndust ölvaðir og eiga þeir ökuleyfissviptingu yfir höfði sér. Þremur til viðbótar var gert að hætta akstri sökum þess að þeir höfðu neytt áfengis en voru þó undir refsimörkum.
Þá hafði lögreglan enn fremur afskipti af um eitt hundrað ökutækjum í umdæminu um helgina, en þeim var öllum lagt ólöglega. Sem fyrr hvetur lögreglan ökumenn til að leggja löglega, m.a. til að þeir komist hjá útgjöldum en sekt vegna stöðubrots í Reykjavík er 10000 kr. og 5000 kr. í öðrum sveitarfélögum í umdæminu. Þeir sem leggja í stæði sérmerktum fötluðum fá 20000 kr. sekt í Reykjavík hafi þeir ekki heimild til slíks, en 10000 kr. sekt er fyrir sama brot í öðrum sveitarfélögum í umdæminu.