17 Desember 2010 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mun halda úti öflugu umferðareftirliti um helgina en búast má við mikilli umferð í umdæminu. Nú er jólaundirbúningurinn í hámarki og því margir á faraldsfæti en vegfarendur eru hvattir til að flýta sér hægt. Sérstök áhersla er lögð á aukið sýnilegt eftirlit á og við stofnbrautir, inni í íbúðahverfum og við verslunarmiðstöðvar. Undanfarið hefur jafnframt staðið yfir sérstakt átak á höfuðborgarsvæðinu þar sem fjölmargir ökumenn hafa verið stöðvaðir og kannað með ástand þeirra og verður því að sjálfsögðu framhaldið. Markmiðið með því er að vekja athygli á þeirri hættu sem stafar af ölvunar-, fíkniefna- og lyfjaakstri en afleiðingar þess geta verið skelfilegar.

Til viðbótar hvetur lögreglan ökumenn til að leggja löglega og ennfremur að nýta sér bílastæðahúsin þar sem þau eru. Mikið er um stöðubrot í umdæminu en það er betra að leggja löglega, og ganga frekar í 2-3 mínútur til að reka erindi á einhverjum stað, heldur en leggja ólöglega og eiga á hættu að fá 5000 kr. sektargjald vegna stöðubrots. Sömuleiðis er gott að hafa hugfast að óráðlegt er að skilja verðmæti eftir í bílum. Sé það óumflýjanlegt er mikilvægt að slíkir hlutir séu ekki í augsýn. Ennfremur er rétt að benda á mikilvægi þess að skilja bíla frekar eftir á upplýstum bílastæðum, ef þess er nokkur kostur. Þjófum finnst nefnilega fátt betra en að athafna sig í myrkrinu þar sem ekki sést til þeirra.