7 Júní 2004 12:00

Áhersluverkefni næstu tveggja mánaða.

Lögreglan í Bessastaðahreppi, Garðabæ og Hafnarfirði mun næstu tvo mánuði leggja sérstaka áherslu á umferðareftirlit í íbúðahverfum í ljósi þess að fjöldi ungra ökumanna á reiðhjolum er að leggja af stað út í umferðina. Þá mun lögregla og huga að því að reglum um reiðhjólanotkun sé fylgt, sem og reglum um notkun negldra hjólbarða.

Annað.

Lögregla hefur, í samræmi við stefnumörkun lögreglustjórans í Hafnarfirði fyrir árið 2004, beint athyglinni að þeim gatnamótum í umdæminu þar sem umferðaróhöpp hafa orðið hvað flest. Er þar um gatnamót Hafnarfjarðarvegar og Fjarðarhrauns að ræða, (Engidalur), Reykjanesbrautar og Fjarðarhrauns, Reykjanesbrautar og Lækjargötu, Hafnarfjarðarvegar og Vífilsstaðavegar og Reykjanesbrautar og Vífilsstaðavegar. Mun því eftirliti fram haldið.

Lögregla hvetur ökumenn til sérstakrar aðgæslu á nýjum vegarkafla Reykjanesbrautar frá Lækjargötu að Hvammabraut. Nokkuð hefur verið um umferðaróhöpp þar eftir að sá vegur, með þeim vegarslaufum sem honum fylgja, var opnaður fyrir umferð. Skýrast þau óhöpp að hluta til af ókunnugleika vegfarenda í bland við óvarkárni og ónauðsynlegum hraðakstri.

Í stefnumörkun og markmiðssetningu lögreglustjórans í Hafnarfirði fyrir árið 2004 kemur fram að stefnt er að því að umferðaróhöppum og -slysum fækki um 10% frá árinu áður. Tölur fyrstu fimm mánaða þessa árs sýna að umferðaróhöppum hefur fækkað um 8% og umferðarslysum um 57%.

Lögregla hefur, sem lið í markmiðssetningunni, lagt áherslu á að ná niður ökuhraða. Vegna þessa fjölgaði kærum um 113% vegna hraðakstursbrota á milli áranna 2002 og 2003, eða frá 1038 árið 2002 í 2211 árið 2003. Þá hefur sérstöku eftirliti og verið haldið uppi með akstri á móti rauðu ljósi og, eins og hér hefur komið fram, með umferð almennt um gatnamót þar sem slysatíðni er há.

Hvort aðgerðir lögreglu hafi skilað þeirri niðurstöðu sem fengin er fyrir fyrstu fimm mánuði ársins skal ósagt látið, en árangur næst þó aldrei nema með aðgæslu og varkárni ökumanna sjálfra. Vonar lögregla að þessar tölur verði til að hvetja ökumenn til umhugsunar og aðhalds svo fækka megi umferðaróhöppum og -slysum enn frekar enda ekki um neitt náttúrulögmál þar að ræða heldur er það í flestum tilvikum óaðgætni og hraðakstur sem orsakar þau.