23 Maí 2003 12:00

Í ársbyrjun árið 2003 setti lögreglan í Bessastaðahreppi, Garðabæ og Hafnarfirði sér m.a. það markmið að fækka umferðaróhöppum í umdæminu. Með það markmið í huga beindi lögreglan sérstakri athygli að hraðakstri og akstri á móti rauðu ljósi.

Kærum vegna hraðaksturs hefur fjölgað úr 313 árið 2002 í 928 á þessu ári, eða um 196%. Kærum vegna aksturs á móti rauðu ljósi hefur fjölgað úr 45 í 72, eða um 56%.

Á þessum sama tíma hefur umferðaróhöppum í umdæminu fækkað úr 245 árið 2002 í 221 árið 2003, eða um 10%.

Samkvæmt skýrslum lögreglu hafa flestir árekstrarnir orðið á gatnamótum Reykjanesbrautar og Fjarðarhrauns eða 9 talsins. Þá hafa einnig orðið talsvert mörg umferðaróhöpp á gatnamótum Reykjanesbrautar og Vífilsstaðavegar, gatnamótum Reykjavíkurvegar og Hjallabrautar og Hjallahrauns og á gatnamótum Fjarðarhrauns og Flatahrauns. Öll eiga þau það sammerkt að vera stór, ljósastýrð og með mikinn umferðarþunga.

Með þessu aukna átaki í umferðarlöggæslu virðist sem umferðaróhöppum í umdæminu hafi fækkað, þó vissulega hefði fækkunin mátt vera meiri. Það liggur hinsvegar fyrir að slysum fækkar ekki nema ökumenn sjálfir taki til í sínum ranni og er það von lögreglu að með samstilltu átaki megi sá árangur nást sem að er stefnt.