24 Desember 2019 07:57
Skýrslan Afbrot á höfuðborgarsvæðinu 2018 er komin út. Í skýrslunni er fjallað um tíðni afbrota á höfuðborgarsvæðinu, en markmiðið er m.a. að halda árlega skrá yfir afbrot í umdæminu og mæla þróun í afbrotatíðni milli ára.
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust 9.597 tilkynningar um hegningarlagabrot árið 2018. Tilkynningum fjölgaði lítillega á milli ára, eða um tæplega þrjú prósent. Skráðum umferðarlagabrotum fjölgaði umtalsvert árið 2018 miðað við fyrri ár. Alls voru skráð tæplega 45 þúsund umferðarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu árið 2018, en ekki hafa jafn mörg brot verið skráð á einu ári frá því að samræmdar skráningar hófust árið 1999. Langflest umferðalagabrot voru vegna hraðaksturbrota eða tæp 35 þúsund brot. Umferð á Íslandi hefur aukist gríðarlega síðustu ár með auknu flæði ferðamanna.
Heilt yfir voru litlar breytingar á milli ára í stærstu brotaflokkunum. Líkt og undanfarin ár voru tilkynningar um auðgunarbrot um það bil helmingur allra tilkynninga um hegningarlagabrot. Tilkynningum fækkaði lítillega á milli ára. Að meðaltali bárust um 390 tilkynningar um auðgunarbrot í hverjum mánuði árið 2019, þar af um 93 tilkynningar um innbrot. Tilkynntum innbrotum fjölgaði á milli ára, en voru samt sem áður um 17 prósent færri en að meðaltali árin 2009 til 2017. Um 40 prósent innbrota árið 2018 voru á heimili og um þriðjungur í ökutæki.
Tilkynningum um kynferðisbrot fjölgaði umtalsvert á milli ára, eða um 23 prósent. Tilkynningarnar voru um 42 fleiri en að meðaltali árin 2009 til 2017. Um það bil helmingur allra tilkynntra kynferðisbrota var vegna nauðgana. Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust 1.328 tilkynningar um ofbeldisbrot árið 2018, en ekki hafa jafn margar tilkynningar borist á einu ári frá því að samræmdar skráningar hófust árið 1999. Ekkert manndráp var til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu árið 2018. Langflestar brota eiga sér stað aðfaranótt laugardags og sunnudags.
Álíka mörg fíkniefnabrot voru skráð á höfuðborgarsvæðinu árið 2018 líkt og árið 2017. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og tollgæslan lögðu hald á um 71 kíló af kannabisefnum árið 2018, um 6 kíló af kókaíni og um 3,5 kíló af amfetamíni. Einnig var lagt hald á um 8.000 stykki af ecstasy töflum. Oftast var lagt hald á kannabisefni og amfetamín, en haldlagningum á ecstasy fjölgaði hvað mest á milli ára.