28 Apríl 2014 12:00

Vinna við ný umferðarljós á gatnamótum Breiðholtsbrautar og Norðurfells, hjá bensínstöð Skeljungs, hefst í fyrramálið, þriðjudaginn 29. apríl.  Búnaður í stjórnkössum verður endurnýjaður vegna tengingar við miðlæga stýringu umferðarljósa.  Einnig verða sett upp ný orkusparandi umferðarljós sem nota tífalt minni orku en gömlu ljósin. Gömlu ljósin verða gerð óvirk eftir klukkan 9 þegar morgunumferðin er gengin niður og unnið verður fram á kvöld við frágang.  Ljósin verða gangsett strax og tengivinnu lýkur.  Mögulegt er að ljósin verði einnig óvirk á miðvikudag.

Til að gæta umferðaröryggis eru allar vinstri beygjur á gatnamótunum bannaðar.  Umferð er beint um merktar hjáleiðir. Vegfarendur eru beðnir velvirðingar á töfum sem kunna að verða, en jafnframt brýnt fyrir ökumönnum að sýna aðgát og virða hraðatakmarkanir.  Umferðarhraði við óvirk ljós takmarkast við 30 km/klst.