27 Febrúar 2019 13:19

Borgarar eru duglegir að hafa samband við lögreglu og benda á það sem betur má fara, ekki síst í umferðinni. Nýverið hafði einn samband bréfleiðis og gerði að umtalsefni aðgengi blindra og sjónskertra í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu og raunar gangandi vegfarenda almennt. Viðkomandi, sem er blindur, vék m.a. að Laugavegi og Suðurlandsbraut og sagði þar skorta að taka tillit til gangandi vegfarenda. Benti hann á gangbrautina gegnt gamla Sjónvarpshúsinu og sagði ekkert heyrast í umferðarljósunum þar því neminn hefði lengi verið óvirkur. Gangbrautarljósin andspænis Hilton Nordica eru litlu skárri að mati mannsins, sem lýsti þeim sem duttlungafullum – stundum heyrist í þeim og stundum ekki. Í bréfinu var sagt hættulegt að fara þarna um, jafnt fyrir blinda sem aðra, og að sumir ökumenn ækju gegn rauðu ljósi og virtu ekki blindrastafinn.

Bréfritari tiltók líka að erfitt væri fyrir sjónskerta að fara um í Múlahverfi. Þar vantaði gangbrautir og víða væri einnig illa lagt. Nefndi hann sérstaklega Lágmúla, sagði bílum þar lagt upp á gangstéttir og það væri hreinlega streituvaldandi að þurfa að fara þarna um. Maðurinn, sem hefur m.a. ferðast um Norðurlönd og Spán undanfarin ár, segir ástandið í umferðarmálum þar ytra miklu betra en hér heima og að á Íslandi vanti mikið upp á tillitssemina.  

Að síðustu hvetur bréfritari til þess að yfirvöld taki sig saman og yfirfari og lagfæri öll umferðarljós á höfuðborgarsvæðinu sem hafa í sér hljóðnema fyrir gangandi vegfarendur.