3 Apríl 2008 12:00

Tvö umferðaróhöpp urðu á Gullinbrú í gær en bæði má rekja til lélegs frágangs á farmi flutningabíla. Í því fyrra fauk timbur af palli vörubíls og hafnaði á fólksbíl sem skemmdist nokkuð. Skömmu áður hafði timbur fokið af vörubíl í Ártúnsbrekku en grunur leikur á að um sama vörubíl hafi verið að ræða. Í því tilviki hlutust sömuleiðis af skemmdir en timbrið lenti þar einnig á fólksbíl. Í seinna óhappinu á Gullinbrú kom vörubíll aftur við sögu en á palli hans var stuðari af bíl. Stuðarinn datt af pallinum og á akbrautina og því þurfti ökumaður bíls sem á eftir kom að draga mjög skyndilega úr hraðanum. Ökumaður bíls þar á eftir náði ekki að bregðast við og árekstur varð ekki umflúinn. Aftanákeyrslan var hörð og skemmdust báðir bílarnir talsvert en um tvo fólksbíla var að ræða. Ökumenn þeirra voru fluttir á slysadeild. Mikil mildi þykir að ekki fór verr, sérstaklega þar sem fyrri vörubíllinn kom við sögu, og ljóst er að þeir sem flytja farm þurfa að vera miklu betur meðvitaðir um skyldur sínar.

Þess má geta að á dögunum kannaði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, ásamt umferðareftirliti Vegagerðar ríkisins, frágang á farmi nokkurra flutningabíla. Athugasemdir voru gerðar í öllum tilvikum og því ljóst að misbrestur á frágangi farms er alltof algengur. Vegna þessa, og fyrrnefndra umferðaróhappa í gær, er rétt að rifja enn upp 73. gr. umferðarlaga en þar segir m.a. um hleðslu ökutækja; Farm skal flytja þannig, að eigi hafi í för með sér hættu fyrir menn eða valdi munatjóni. Þess skal ennfremur gætt, að eigi sé hætta á að farmur dragist eftir akbraut eða falli á hana.

Í reglugerð um hleðslu, frágang og merkingu farms segir ennfremur í 2. gr.; Farm ökutækis skal skorða tryggilega og festa við ökutækið. Þannig skal frá gengið að farmurinn byrgi ekki útsýni ökumanns eða hætta sé á að hann hreyfist til eða falli af ökutækinu og valdi tjóni hvort heldur sem er í kyrrstöðu eða í akstri, svo sem við snögga hraða- eða stefnubreytingu ökutækis.

Af framangreindum óhöppum má glöggt sjá að lög og reglugerðir er lúta að frágangi farms eru ekki settar að ástæðulausu. Göngum tryggilega frá farmi og ökum varlega.