12 Október 2009 12:00

Tuttugu og sex umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina en tvö þeirra má rekja til ölvunar- og fíkniefnaaksturs. Flest óhöppin voru minniháttar en í nokkrum tilvikum þurfti þó að flytja fólk á slysadeild. Í fimm tilfellum var um afstungu að ræða en oft getur reynst erfitt að ná í hina óprúttnu ökumenn. Fjórir slíkir voru þó handteknir í miðborginni síðdegis á laugardag en um var að ræða tvo karla og tvær konur. Fólkið, sem er allt um tvítugt, var í bíl sem var ekið á kyrrstæða bifreið annars staðar í borginni. Þegar til þeirra náðist viðurkenndu þau að hafa verið í umræddum bíl en neituðu að gefa upp hver hefði verið við stýrið. Fólkið, sem var í annarlegu ástandi, var handtekið en eftir dvöl í fangageymslu lögreglunnar fékkst botn í málið og lofaði ökumaðurinn að bæta tjónið.

Fleiri ökufantar komu við sögu hjá lögreglunni um helgina en á laugardagsmorgun neitaði ökumaður jeppabifreiðar að stöðva för þegar kanna átti með ástand hans. Jók hann þess í stað ferðina og var honum veitt stutt eftirför í Öskjuhlíðina. Þar missti maðurinn stjórn á bílnum sem hafnaði utan vegar eftir að hafa farið yfir grjót og ekið niður tré. Nokkrar skemmdir urðu á gróðri sem og bílnum en ökumaðurinn, karl á þrítugsaldri, var ölvaður.