18 Desember 2007 12:00
Áttatíu umferðaróhöpp var tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina en sex þeirra má rekja til ölvunaraksturs. Flest óhöppin voru minniháttar en í einhverjum tilvikum þurfti þó að flytja fólk á slysadeild. Í tólf tilfellum var um afstungu að ræða. Í gær voru þrjátíu og tvö umferðaróhöpp tilkynnt til lögreglu.
Um helgina voru allnokkrir ökumenn teknir fyrir hraðakstur í umdæminu. Þeir voru m.a. stöðvaðir á Sæbraut, Reykjanesbraut, Gullinbrú, Suðurlandsvegi, Vesturlandsvegi, Bústaðavegi, Háteigsvegi og í Ártúnsbrekku. Grófasta hraðakstursbrotið var hinsvegar framið á Strandvegi í Grafarvogi. Þar mældist bíll rúmlega þrítugs ökumanns á 100 km hraða en leyfður hámarkshraði á umræddum stað er 50.