23 Október 2006 12:00

Um helgina urðu 44 umferðaróhöpp í umdæmi lögreglunnar í Reykjavík. Í átta þeirra varð slys á fólki en flestir hinna slösuðu ætluðu sjálfir að koma sér á slysadeild. Meiðsli þeirra voru því minniháttar en það er eini ljósi punkturinn við öll þessi óhöpp. Í fjórum tilfellum komu ölvaðir ökumenn við sögu en alls voru nítján teknir fyrir ölvunarakstur um helgina. Það er ívið meira en undanfarið. Þá var einn ökumaður tekinn fyrir að aka undir áhrifum lyfja.

Þá stöðvaði lögreglan för sjö ökumanna sem þegar var búið að svipta ökuleyfi. Einn þeirra var nú tekinn fyrir þetta brot öðru sinni en veruleg fjársekt liggur við því að keyra ökutæki og vera sviptur réttindum. Og það eru fleiri sem eiga sekt yfir höfði sér í kjölfar öflugs eftirlits lögreglunnar um helgina.

Tuttugu og tveir, bæði ökumenn og farþegar, voru stöðvaðir fyrir að nota ekki bílbelti og sjö ökumenn töluðu í síma án þess að nota handfrjálsan búnað. Skoðunarmál og tryggingar eru líka víða í ólagi. Skrásetningarnúmer voru klippt af níu ökutækjum sökum þess að eigendur þeirra höfðu ekki virt ákvæði um skoðun. Þá voru skrásetningarnúmer tekin af þrettán ökutækjum sem öll reyndust ótryggð.