27 Mars 2024 13:32
Lögreglan minnir alla vegfarendur á að fara varlega í umferðinni um páskana. Á þessum árstíma eru ökumenn gjarnan farnir að „kitla pinnann“ og þess hafa sést merki í umferðinni undanfarið. Allnokkrir hafa verið sektaðir fyrir vikið og sömuleiðis hafa ökumenn verið staðnir að því að tala í símann án handfrjáls búnaðar. Sektarbókin hefur því farið á loft, en hætt er við að þetta komi illa við pyngjuna hjá flestum. Ökumenn eru því hvattir til að vera réttu megin við lögin, ekki bara til að forðast óþarfa útgjöld, heldur til að stuðla að umferðaröryggi allra. Um páskana mun lögreglan fylgjast sérstaklega með umferðinni til og frá höfuðborgarsvæðinu, en einnig halda úti eftirliti í umdæminu öllu eins og venjan er.
Veðurspáin fyrir næstu daga er annars misgóð eftir landshlutum, en ferðalangar eru hvattir til að kynna sér veðurspár áður en lagt er af stað. Auk aksturs á löglegum hraða er líka nauðsynlegt að ökumenn og farþegar spenni ávallt beltin, yngri börnin séu í þar til gerðum barnabílstólum, og að sjálfsögðu eiga allir ökumenn að vera allsgáðir. Lögreglan hvetur alla vegfarendur til þess að sýna þolinmæði, sem er ómissandi í umferðinni, og gæta skal sérstakrar varúðar við framúrakstur.
Góða ferð – komum heil heim.