24 Apríl 2007 12:00
Átján umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á síðasta sólarhring en það er með minnsta móti. Óhöppin voru nær öll minniháttar og ekki er vitað um nein teljandi meiðsli á fólki. Vera kann að alþjóðleg umferðaröryggisvika eigi hér hlut að máli. Hún hófst í gær og því voru umferðarmál í brennidepli en ekki er ósennilegt að það hafi haft áhrif á ökumenn.
Sex voru teknir fyrir hraðakstur og tveir fyrir ölvunarakstur. Sem fyrr eru margir sem trassa að færa ökutæki til skoðunar og/eða standa ekki skil á vátryggingu. Lögreglumenn eru mjög vel vakandi yfir því að þessir hlutir séu í lagi en í gær voru skráningarnúmer fjarlægð af nálægt tuttugu ökutækjum þar sem þessum atriðum var ábótavant.