Frá vettvangi í Jaðarseli.
1 Júlí 2015 22:53

Í síðustu viku slösuðust fimmtán vegfarendur í þrettán umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 21. – 27. júní.

Sunnudaginn 21. júní kl. 4.50 fór ökumaður torfæruhjóls í kollhnís á Hlíðarhjalla á móts við nr. 51. Ökumaðurinn virtist undir áhrifum áfengis. Hann var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 22. júní. Kl. 7.57 var fólksbifreið ekið aftan á strætisvagn í Jaðarseli við Látrasel. Ökumaður fólksbifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Kl. 13.31 féll hjólreiðarmaður í götuna eftir að hafa rekist utan í bifreið sem ekið var samhliða honum vestur Höfðabakka við Streng. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. kl. 20.20 var stúlka á reiðhjóli fyrir bifreið á Strandgötu gegnt húsi nr. 75. Bifreiðinni var ekið vestur götuna þegar stúlkan ætlaði yfir hana á gangbraut. Hún var flutt á slysadeild.

Þriðjudaginn 23. júní kl. 19.54 varð árekstur með bifreið og bifhjóli á Hvaleyrarbraut. Bifreiðinni var ekið vestur götuna  og bifhjólinu austur hana. Á móts við Brekkutröð var bifreiðinni beygt áleiðis til suðurs og í veg fyrir hjólið. Ökumaður bifhjólsins var fluttur á slysadeild.

Fjögur umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 24. júní. Kl. 17.12 fékk ökumaður sykurfall við akstur og leið út af með þeim afleiðingum að bifreiðin lenti á umferðarljósavita við gatnamót Suðurlandsbrautar og Vegmúla. Hann var fluttur á slysadeild til skoðunar. Kl. 17.49 féll maður af reiðhjóli í Túnbrekku. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 19.50 rann mannlaus bifreið yfir fætur fyrrverandi ökumanns hennar. Þetta gerðist við Hagkaup í Litlatúni. Eftir að ökumaðurinn hafði lagt bifreiðinni í stæði og stigið út rann bifreiðin af stað með fyrrgreindum afleiðingum. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 21.30 féll hjólreiðamaður af hjólinu á Suðurlandsvegi við Gunnarshólma eftir að hjólbarði sprakk.  Hann var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 25. júní. Kl. 12.50 féll hjólreiðamaður af hjólinu á Krýsuvíkurvegi nálægt Hafnarfirði. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 17.20 varð aftanákeyrsla Í Setbergstorgi. Ökumaður aftari bifreiðarinnar var ekki í bílbelti. Hann ásamt ökumanni og farþega fremri bifreiðarinnar ætluðu sjálf að leita sér aðstoðar á slysadeild vegna meiðsla. Og kl. 19.41 varð árekstur með bifreið, sem ekið var norður Nóatún og beygt áleiðis vestur Brautarholt, og bifreið, sem ekið var suður Nóatún. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. 

Föstudaginn 26. júní kl. 13.38 féll ökumaður sendibifreiðar í yfirlið í Skipasundi gegnt húsi nr. 9 með þeim afleiðingum að bifreið hans lenti á tveimur öðrum mannlausum og rafmagnstengikassa. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild til skoðunar.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara varlega.

Frá vettvangi í Jaðarseli.

Frá vettvangi í Jaðarseli.