Frá vettvangi við Suðurlandsbraut.
27 Júlí 2015 12:42

Í síðustu viku slösuðust þrettán vegfarendur í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 19. – 25. júlí.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 19. júlí. Kl. 12.44 varð aftanákeyrsla á afrein Reykjanesbrautar að Fífuhvammsvegi. Ökumaður fremri bifreiðarinnar reyndist ökuréttindalaus. Ökumaður aftari bifreiðarinnar kenndi til í hálsi og á hendi. Hann ætlaði að leita sér aðhlynningar á slysadeild. Kl. 17.54 var bifreið ekið á vegrið á Vesturlandsvegi við Suðurlandsveg á leið til austurs. Ökumaðurinn var sviptur ökuréttindum. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 23.14 var bifreið ekið út í skurð á Kjalarnesi við Vesturlandsveg. Ökumaður og farþegi, sem báðir voru undir áhrifum áfengis, voru fluttir á slysadeild.

Mánudaginn 20. júlí kl. 16.42 féll hjólreiðamaður, hjálmlaus, á Þinghólsbraut við hús nr. 37. Hann var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 21. júlí. Kl. 11.28 varð hjólreiðamaður fyrir bifreið á aðrein Hafnarfjarðarvegar við Arnarnesveg. Hann kenndi til eymsla á hendi og fæti og ætlaði sjálfur að fara til skoðunar á slysadeild. Og kl. 15.51 lentu saman reiðhjól og vespa þegar ökutækin mættust í krappri beygju á göngustíg við Fella- og Hólakirkju. Hjólreiðamaðurinn, ökumaður vespunnar og farþegi á henni kenndu sér eymsla, en ætluðu sjálfir að leita sér aðstoðar á slysadeild.

Miðvikudaginn 22. júlí kl. 10.08 fór sláttudráttarvél á hliðina á Suðurlandsbraut ofan við Laugardalshöll. Ökumaðurinn var að slá þar gras í brekku. Hann var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 23. júlí kl. 15.02 var bifreið ekið á ljósastaur á Hamrabergi við Tinnuberg. Ökumaðurinn hafði verið að einbeita sér að hleðslutæki fyrir farsíma. Hann ætlaði sjálfur að leita sér aðstoðar starfsfólks slysadeildar vegna meiðsla á handlegg og í andliti.

Laugardaginn 25. júlí kl. 8.43 valt malarflutningabifreið á Vesturlandsvegi eftir að hafa verið af frárein Reykjanesbrautar til austurs. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Sunnudaginn 25. júlí kl. 10.09 varð árekstur með bifreið, sem ekið var austur Haukanes, og bifreið, sem beygt var af Lundanesi áleiðis vestur Haukanes. Skammt frá gatnamótunum var síðarnefndu bifreiðinni ekið framan á þá fyrrnefndu. Farþegi í henni, ófrísk kona, var flutt á slysadeild. Ökumaðurinn, sem beygði, sagðist hafa verið eitthvað annars huga við aksturinn áður en óhappið varð.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni.

Frá vettvangi við Suðurlandsbraut.

Frá vettvangi við Suðurlandsbraut.