25 Ágúst 2015 10:35
Í síðustu viku slösuðust tíu vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 16. – 22. ágúst.
Mánudaginn 17. ágúst kl. 8.48 varð aftanákeyrsla á afrein Víkurvegar að Vesturlandsvegi. Ökumaður aftari bifreiðarinnar kenndi til í hálsi og var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 18. ágúst. Kl. 15.51 varð árekstur með bifreið, sem ekið var vestur Laugalæk, og bifreið, sem var ekið norður Laugarnesveg. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.59 féll ökumaður af bifhjóli á Suðurlandsvegi við Litlu Kaffistofuna. Hann var fluttur á slysadeild.
Miðvikudaginn 19. ágúst kl. 16.26 varð aftanákeyrsla á afrein Vesturlandsvegar að Víkurvegi. Farþegi í fremri bifreiðinni ætlaði í framhaldinu sjálfur að leita á slysadeild til athugunar vegna hálseymsla.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 20. ágúst. Kl. 12.47 varð aftanákeyrsla í Kringlunni gegnt húsi nr. 7. Farþegi í fremri bifreiðinni var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.14 varð aftanákeyrsla á Laugavegi við Nóatún. Ökumaður og farþegi í fremri bifreiðinni fóru sjálfir á slysadeild til skoðunar.
Föstudaginn 21. ágúst kl. 11.33 var bifreið ekið Grensásveg til norðurs og beygt til hægri áleiðis austur Breiðagerði. Þar varð sex ára drengur fyrir bifreiðinni þar sem hann var á göngu þvert yfir akbrautina – á hraðahindrun. Hann var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 22. ágúst. Kl. 13.52 féll drengur af reiðhjóli á Arnarbakka við Breiðholtsskóla. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.33 varð fjögurra bifreiða árekstur á gatnamótum Grensásvegar, Fellsmúla og Skeifunnar. Bifreið var ekið austur Fellsmúla og annarri vestur Skeifuna í vinstri beygju suður Grensásveg. Við áreksturinn köstuðust bifreiðirnar á tvær aðrar kyrrstæðar á Grensásvegi. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni.