Frá vettvangi á Krýsuvíkurvegi.
1 September 2015 17:07

Í síðustu viku slösuðust tuttugu vegfarendur í þrettán umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 23. – 29. ágúst.

Fjögur umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 24. ágúst. Kl. 10.42 var bifreið ekið inn á Reykjanesbraut á móts við Straumsvík, í veg fyrir bifreið, sem ekið var um götuna. Ökumaður og tveir farþegar í síðarnefndu bifreiðinni voru fluttir á slysadeild. Kl. 18.29 var bifhjóli ekið aftan á kerru aftan í bifreið á Smárahvammsvegi við Arnarnesveg. Hemlaför bifhjólins mældust 56 metrar. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 22.22 var bifreið ekið út frá bifreiðastæði við Bíldshöfða og í veg fyrir vespu, sem ekið var um götuna til austurs. Ökumaður hennar var fluttur á slysadeild. Og kl. 23.01 var bifreið ekið af stað aftur á bak við hús á Selbraut og yfir fót á barni, sem þar var. Það var flutt á slysadeild.

Fjögur umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 25. ágúst. Kl. 0.54 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni í lausamöl á Krýsuvíkurvegi við Vatnsskarð með þeim afleiðingum að hún valt út fyrir veg. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild. Kl. 12.01 datt kona af reiðhjóli í Brekkubyggð. Hún var flutt á slysadeild. Kl. 18.47 datt kona á reiðhjóli við Skálafell. Hún hafði lent í moldardrullu með þeim afleiðingum að hún datt framfyrir sig með bringuna beint í stýrið. Hún var flutt á slysadeild. Og kl. 20.24 féll barn af reiðhjóli í Vallhólma. Það hafði verið að hjóla á götunni, horft niður fyrir sig skamma stund og lent á nálægri kyrrstæðri bifreið með fyrrgreindum afleiðingum. Barnið var flutt á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 26. ágúst. Kl. 8.53 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Miklubraut við Ártúnsbrekku. Ökumennirnir þrír og farþegi í einni bifreiðinni voru fluttir á slysadeild. Og kl. 16.50 lenti hjólreiðamaður á kyrrstæðri bifreið á Hamratanga við Bogatanga. Hann var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 27. ágúst. Kl. 14.03 varð árekstur með bifreið, sem ekið var um Háaleitisbraut og beygt til vinstri, áleiðis að Lágmúla, í veg fyrir bifreið, sem ekið var í gagnstæða átt á Háaleitisbraut. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild. Kl. 16.19 lenti drengur á reiðhjóli, sem kom hjólandi frá Engimýri, á bifreið, sem ekið var suður Krókamýri. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.15 féll drengur af reiðhjóli er hann hjólaði upp á gangstéttarkant við Setbergsskóla í Hlíðarbergi. Drengurinn var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni.

Frá vettvangi á Krýsuvíkurvegi.

Frá vettvangi á Krýsuvíkurvegi.