Frá vettvangi í Mosfellsbæ.
14 September 2015 11:02

Í síðustu viku slösuðust sextán vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 6. – 12. september.

Mánudaginn 7. september kl. 18.37 varð árekstur með bifreið, sem ekið var norður Heiðmerkurveg, í veg fyrir bifreið, sem ekið var austur Suðurlandsveg. Við áreksturinn kastaðist önnur bifreiðin í veg fyrir hópbifreið, sem ekið var vestur Suðurlandsveg. Ökumenn tveggja bifreiðanna, auk átta farþega, voru fluttir á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 8. september. Kl. 8:21 féll sorptæknir af sorphirðubifreið í Hlaðbæ. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 10.46 var bifreið ekið á ljósastaur við aðrein að Háholti. Bifreiðinni hafði verið ekið af Vesturlandsvegi. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild til skoðunar. Og kl. 10.57 varð aftanákeyrsla á Fífuhvammsvegi við Lindarhvamm. Ökumaður aftari bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Hann var grunaður um akstur undir áhrifum áfengis.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 9. september. Kl. 9.51 varð aftanákeyrsla á Miklubraut við Kringlumýrarbraut. Ökumaður fremri bifreiðarinnar kenndi til eymsla í hálsi og ætlaði sjálfur að leita sér aðstoðar á slysadeild. Og kl. 16.57 var níu ára stúlka, sem gekk áleiðis yfir Langholtsveg á gangbraut með umferðarstýrðum ljósum við Holtaveg, fyrir bifreið. Hún var flutt á slysadeild.

Fimmtudaginn 10. september kl. 23.53 var bifreið ekið á ljósastaur við Vesturlandsveg við brú sem liggur upp á Suðurlandsveg í framhaldi af árekstri við bifreið eftir að hafa reynt ótímabæran framúrakstur. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni.

Frá vettvangi í Mosfellsbæ.

Frá vettvangi í Mosfellsbæ.